Aðalvík er einn fallegasti staður friðlandsins á Hornströndum. Gróðurinn er mikill, þrátt fyrir að vera á mjög norðarlegri breiddargráðu, og bæði dalirnir og strendurnar gera Aðalvík að hinu fullkomna umhverfi fyrir útivistarævintýri. Víkin er vestasta víkin á Hornströndum, milli Straumnesfjalls til norðurs og Darra til suðurs. Í vikinni voru fyrrum tvö sjávarþorp, Sæból og Látrar. Sæból er í víkinni að vestan eða Vestur – Aðalvík, þar sem bjuggu hátt í 80 manns þegar mest var. Þaðan er vel göngufært inn Staðardalinn yfir Fannalágafjall og niður á Hesteyri. Norðar í víkinni eru svo Látrar, en þar bjuggu um 120 manns þegar mest var. Vel göngufært er frá Látrum upp á Straumnesfjall og í Rekavík bak Látur. Í seinni heimsstyrjöldinni reistu Bretar herstöð á Darra, m.a loftvarnarbyssu, byggingar og veg. Vegslóðin er sýnilegur frá Sæbóli og á Darranum má enn sjá rústir þessarra mannvirkja. Í kalda stríðinu voru svo reist hernaðarmannvirki á Straumnesfjalli og lagður þangað vegur. Við Látra er einfalt tjaldsvæði með útikamri á vegum Umhverfisstofnunar.